Búlgaría - heillandi matararfleifð
Búlgaría er staðsett við Svartahafið og á landamæri m.a. að Grikklandi og Tyrklandi. Í gegnum tíðina hafa hinir ýmsu ættbálkar og heimsveldi farið um og byggt þetta land og sett mark sitt á sögu þess og menningu. Ekki síst matarmenningu. Þrakverjar, Keltar, Persar, Makedóníumenn, Slavar, Búlgarir (Tyrkneskir hirðingja ættbálkar), Grikkir, Rómverjar og Tyrkir. Að ógleymdu Ottóman veldinu, sem bætti m.a. Mið- Austurlenskum og Norður Afrískum áhrifum við matarkokteilinn. Á þessu námskeiði gefst okkur einstakt tækifæri til að kynnast þessari heillandi matararfleifð frá fyrstu hendi.
Diana Rousseva er fædd í borginni Varna á Svartahafsströnd Búlgaríu. Diana er viðskiptafræðingur að mennt, býr og starfar á Íslandi og hefur alla tíð haft mikla ástríðu fyrir mat. Í Búlgaríu er matargerð það sem gjarnan færir kynslóðir saman. Að elda og borða saman með vinum og fjölskyldu eru að mati Diönu samverustundir sem styrkja tengslin mest. Matargerð var því mikilvægur hluti af hennar uppvexti. Diana flutti til Íslands fyrir 28 árum en ástríðan fyrir mat frá heimalandinu hefur síst minnkað. Henni þykir því einstaklega gaman að fá að kynna þennan fallega matarheim fyrir öðrum.
Matseðill:
- Banitsa – Filodeigsbaka með fetaosti, eggjum og jógúrt.
- Patladgani na furna – Bökuð eggaldin m/pestó, hvítlauk, osti o.fl.
- Shopska salata – Salat með grænmeti og fetaosti. Þjóðarréttur Búlgaríu.
- Moussaka – Moussaka með kartöflum, hökkuðu kjöti, grænmeti og alls kyns kryddum.
- Supa leshta – Súpa með linsubaunum og allskyns grænmeti og kryddum.
- Dobrudzhanki – Fljótlegar brauðbollur
- Sladak salam – Sætt súkkulaðisalami með pistasíuhnetum, rúsínum o.fl. gúmmelaði.
Innifalið er allt hráefni, kennsla matreiðslumanns, þjónusta uppvaskara/aðstoðarmanns, afnot af svuntu og öllum áhöldum. Þátttakendur fá allar uppskriftir af því sem gert er. Síðast en ekki síst er smakkað á öllu sem gert er á námskeiðinu!
Kennari á námskeiðinu er Diana Rousseva
Námskeiðið hefst kl 17:00 og stendur í u.þ.b. 3 klst
Við minnum fólk á námskeiðs- og tómstundastyrki verkalýðsfélaga og fyrirtækja, sem endurgreiða námskeiðskostnað.