Um okkur

 

HVAÐ ER SALT ELDHÚS?

Salt Eldhús er kennslueldhús sælkerans. Salt Eldhús býður viðskiptavinum sínum skemmtilegar, matartengdar upplifanir með gagnvirkri kennslu, fræðslu og kynningum. Í boði er fjölbreytt úrval matreiðslu námskeiða, fyrsta flokks aðstaða og frábærir kennarar. Einnig eru í boði einkanámskeið fyrir hópa, fyrirtæki og stofnanir.

HVER ERUM VIÐ?

Eigendur Salt Eldhúss eru Sigríður Björk Bragadóttir matreiðslumaður og fyrrverandi ritstjóri Gestgjafans, sem jafnframt er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og Sigurður Grendal Magnússon viðskiptafræðingur.

Auk Sigríðar Bjarkar kemur fjöldi matreiðslumanna og matgæðinga að kennslu á námskeiðum fyrirtækisins og uppákomum á þess vegum.

Sigríður Björk Bragadóttir (Sirrý), framkvæmdastjóri og eigandi.

"Það kom aldrei neitt annað til greina en að vinna við mat. Ég var ekki gömul þegar ég byrjaði að fikra mig áfram í eldhúsinu. Það var mikill mataráhugi í fjölskyldunni, mamma var snillingur í matargerð og jafnflink við kökubakstur. Báðar ömmur mínar höfðu gaman af því að elda, hvor með sínu lagi og sinn smekk, en afi minn sá hins vegar um konfektgerð og kökubakstur á heimilinu fyrir jólin, þannig að ég hafði góðar fyrirmyndir. Þegar ég var 14 ára skráði ég mig á smurbrauðsnámskeið og varð í kjölfarið sjálfskipuð smurbrauðsdama á heimilinu. Leiðin lá síðan að sjálfsögðu í Hótel- og Veitingaskólann, hvaðan ég útskrifaðist sem matreiðslumaður.

Matreiðsla og bakstur eru mín ástríða og áhugamál og það eru mikil forréttindi og lán að hafa fengið tækifæri til að gera það að ævistarfi. Vinna við blaðamennsku og matreiðsluþáttagerð í 10 ár á flottasta matartímaritinu hér á landi, Gestgjafanum, var ómetanleg reynsla og sannkallað draumastarf. Síðustu 4 árin á blaðinu var ég ritstjóri þess og starfaði með frábæru og hæfileikaríku fólki, sem allt hefur haft áhrif á mig og veitt mér innblástur.

Hjá Salt Eldhúsi nýtist reynsla mín vel því matreiðsla er nú bara þannig að maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og bæta við þekkinguna. Fyrir mér er matargerð eins konar þerapía, þar sem maður vindur ofanaf deginum með því að elda eitthvað gott og nærandi og njóta svo afrakstursins með þeim sem manni þykir vænt um."